Stefnt er að því á Kiðjabergsvelli í sumar að halda fjölmennasta golfmót sem fram hefur farið hér á landi. Mótið mun standa yfir í sólarhring, þ.e.a.s. hægt að ræsa út í 24 tíma. Byrjað verður að ræsa út keppendur kl. 14:00 föstudaginn 11. júní og ræst út til kl. 13:50 laugardaginn 12. júní.
Reiknað er með að þetta mót verði árlegur viðburður og spennandi kostur fyrir erlenda ferðamenn sem vilja upplifa að leika miðnæturgolf. Ákveðið var að halda þetta mót viku fyrir jónsmessuna, svo það skarist ekki á við Arctic Open á Akureyri.
„Við stefnum á að þetta mót verði sterkt aðdráttarafl fyrir íslenska sem og erlenda kylfinga í framtíðinni. Það er fátt sem jafnast á við að leika golf á þessum árstíma þegar dagsbirtan er til staðar allan sólarhringinn. Kiðjabergsvöllur er að margra mati eitt fallegasta vallarstæði landsins. Það er tilraunarinnar virði að fara af stað í þetta verkefni og við erum bjartsýn á að þetta gangi nú allt saman mjög vel,“ segir Birkir Már Birkisson, framkvæmdastjóra Golfklúbbsins Kiðjabergs.
„Við höfum sett okkur það markmið að halda fjölmennasta golfmót Íslandssögunnar – og gera jafnframt atlögu að setja heimsmet í leiðinni. Markmið okkar er að búa til skemmtilega upplifun fyrir mótsgesti þar sem við leggjum einnig áherslu góðan leikhraða, “ segir Birkir Már.
Mótið heitir 24 Open og hægt að koma að 480 keppendum. Eftir því sem best er vitað væri það fjölmennasta golfmót allra tíma þar sem að keppendur eru ræstir út á einum sólahring eða rétt tæplega 24 tímum á einum og sama keppnisvellinum.
Keppnisfyrirkomulagið verður einstæklings punktakeppni með forgjöf og eru vegleg verðlaun í boði, meðal annars fimm glæsilegir ferðavinningar frá Icelandair.
Skráning í mótið hefst mánudaginn 26. apríl kl. 12:00 á golf.is.