Það er ekki á hverjum degi sem nágrannar fara holu í höggi á Kiðjabergsvelli sama daginn, en það gerðist laugardaginn 21. ágúst. Herdís Dröfn Fjeldsted fór holu í höggi á 16. holu þennan dag, en áður höfum við sagt frá því að Ingibjörg Sólrún Magnúsdóttir hafi farið holu í höggi á 3. holu vallarins.
Þær Ingibjörg og Herdís eru nágrannar þar sem þær eiga báðar sumarbústað í Hestlandinu við Kiðjabergsvöll. Ekki nóg með það, þá eru þær með nánast sömu forgjöf, Herdís með 36,8 og Ingibjörg með 36,7.
Herdís Dröfn notaði 5 tré við höggið fullkomna. Hún tíaði Callaway boltann með bleiku plast-tíi, sem hún fékk lánað hjá einni annarri í hollinu.
Hún er bæði meðlimur í golfklúbbnum Oddi og Kiðjabergi og er með bústað í Hestlandinu ásamt manni sínum Sævari Péturssyni.