Vallarvísir

VALLARVÍSIR

Golfvöllur Kiðjabergs er sérlega skemmtilegur 18 holu golfvöllur sem er staðsettur í friðsæld íslenskrar náttúru. Til þess að golfarar geti skipulagt hringinn á golfvellinum vandlega og lagt grunninn að góðum árangri höfum við sett upp skilmerkilegar upplýsingar um brautir vallarins.
Smellið á brautarnúmer til að fá nánari lýsingu

Teigurinn er staðsettur hátt uppi á klettum og liggur brautin í sveig til hægri upp á bæjarhólinn.

Ein glompa vinstra megin á brautinni og tvær hægra megin ásamt tjörn þrengja að upphafs- högginu.


Þessi braut skorar á marga kylfinga að reyna við flötina í tveimur höggum sem þó er krefjandi og áhættan mikiI. Vindur hefur mikil áhrif á ákvörðun kylfinga því höggið að flötinni er blint og getur reynst ansi snúið auk þess sem þrjár glompur eru staðsettar hægra megin við flötina.

Brautin liggur meðfram Hvítá í sveig til hægri. Hlaupandi (lækurinn) sker brautina í tvo parta sem gefur brautinni mikinn svip.


Hér eru hættur á alla kanta, upphafshöggið þarf að vera nákvæmt þótt nóg pláss sé fyrir þá sem ekki taka mikla áhættu. Innáhöggið er mjög erfitt, oft langt högg, þar sem stutt er í víti beggja vegna við flötina og fyrir aftan, ásamt því sem tvær glompur eru staðsettar fyrir framan hægra horn flatarinnar. Þessi braut er vafalítið ein erfiðasta, en ekki síður fallegasta par fjögur hola landsins.


Teigurinn er staðsettur á klettunum fyrir ofan 2. flötina.

 

Brautin liggur örlítið uppí móti sem gerir brautina lengri en menn halda. Flötin er á tveimur stöllum og er varin með tveimur glompum, fyrir framan og aftan, ásamt því sem vatnstorfæra er vinstra meginn við flötina. Mjög algengt er að kylfingar spili of stutt hér sem setur vatnstorfæruna óþarflega mikið í leik fyrir vikið.   

Brautin liggur meðfram háum klettum, á vinstri hönd í örlítinn sveig til vinstri. Tvær glompur eru á brautinni og ein glompa ver flötina fyrir framan hægra horn hennar. Gott upphafshögg er mikilvægt því annars er annað höggið, sem er nokkuð upp í móti orðið erfltt með löngu járni. Flötin er stór og því hefur staðsetning holunnar mikla þýðingu í innáhögginu.   

Þessi braut er ekki löng en miklu máli skiptir að vera á braut í upphafshögginu. Frá teignum er mikið og ægifagurt útsýni yfir Hestvatn og heim að Gelti. Flötin er fremur lítil og er varinn af klettum og lyngi og því krefst innáhöggið mikillar nákvæmni.


Tvær glompur eru vinstra megin á brautinni og ein glompa fyrir aftan hægra horn flatarínnar. Holustaðsetning hefur mikið að segja hér því eftir því sem holan er meira til hægri, séð frá brautinni, þeim mun meira koma klettar og lyng inn í leik.   

Þessi braut býður kylfingum velkomið að reyna hvað þeir geta, ein af fáum slíkum. Eins og lengdarmælingin sýnir er hún mjög stutt, af par fjögur holu að vera en hún er ansi varasöm. 


Kylfingar taka hér ýmist járn og spila öruggt, ca. 70 metra frá flötinni, eða reyna að hitta flötina í upphafshögginu. Allt er hægt, en margt getur tapast eins og reynslan hefur sýnt. Þrjár glompur fyrir framan sem og lynggróður umhverfls flötina gera þessa holu að "give and take" holu þar sem stutt er í fugla en jafn stutt í BOMBU.   

Mikill hæðarmunur og stórbrotið útsýni í suðurátt gefur þessari braut mikinn og eftirminnilegan "persónuleika". Teigurinn er staðsettur hátt uppi og er vel komið fyrir í klettunum ofan brautarinnar. Flötin er stór og tekur mjög vel við þar sem flug boltans er hátt. Vindur getur haft mikil áhrif á þessari holu og munar oft miklu á járnavali frá degi til dags. Ein fallegsta par 3 hola landsins að margra mati.  

Ein af þremur stuttum en afar varasömum par fjögur brautum á fyrri hluta vallarins. Brautin heldur vel boltanum þar sem hún er með háum köntum sitt hvoru megin. Þetta gefur kylfingum, sem hafa góða tækni og góða stjórn á boltanum, að reyna að komast nálægt flötinni í upphafshögginu. Tvær glompur eru þó hægra megin á brautinni sem gera þann leik erfiðan sem og tvær glompur framan við flötina. Flötin er á tveimur stöllum, hægri- vinstri, og rennur Hlaupandi (lækurinn) fyrir aftan flötina.   

Brautin liggur í miklu landslagi og krefur kylfinga um skynsemi í leik sínum. Upphafshöggið þarf að vera nákvæmt þar sem hættur eru beggja vegna brautarinnar. Annað höggið er blint högg en nægt rými er til að leggja upp fyrir innáhöggið. Flötin er hátt uppí fyrir ofan brautina á þremur pöllum sem gerir innáhöggið erfitt. Tvær djúpar glompur eru vinstra megin við flötina sem ógna mjög þeim sem reyna að fara inn að flötinni í tveimur höggum.

Þessi braut liggur í sveig frá vinstri til hægri. Upphafshöggið er nokkuð þægilegt en er þó með eina varasama glompu hægra megin á brautinni. Innáhöggið er vandasamt þar sem flötin er hátt uppi og mikill bakki hægra megin ásamt djúpri glompu. Því getur reynst erfitt að ná pari missi kylfingar annað höggið hægra megin við flötina. Flötin er á tveimur stöllum þar sem fremri stallurinn er mun minni en sá aftari og því ber að hafa góðar gætur á því hvar holan er staðsett.   

Þessi braut liggur í mikinn sveig frá hægri til vinstri. Upphafshöggið er mjög mikilvægt þar sem flötin er grunn og erfitt að fá boltann til að stoppa sé innáhöggið slegið með löngu járni. Þrjár glompur eru vinstra megin á brautinni sem og margir trjárunnar sem ýta leiklínunni lengra til hægri. Tvær glompur eru við flötina og trjárunnar fyrir aftan hana sem gera innáhöggið vandasamt, sérstaklega ef upphafshöggið er ekki vel staðsett.   

Flötin er vel varin af hól fyrir framan hana hægra megin og með glompu vinstra megin. Flötin tekur mjög vel við boltanum þar sem hún hallar mikið á móti. Mikið brot er í flötinni og skiptir holustaðsetning mjög miklu máli hér. Langflestir kylfingar taka hér of stutta kylfu og lenda því í ógöngum í hólnum. 

Þessi braut hefur lengi verið eitt af einkennum vallarins og verið ein fallegasta par fimm hola landsins. Upphafshöggið er mjög mikilvægt en jafnframt snúið þar sem hóllinn hægra megin við brautina ýtir leiklínunni til vinstri í átt að glompunum. Margir kylfingar reyna við flötina í tveimur höggum, með misjöfnum árangri, en sú ákvörðun byggir á teighögginu. Miklar hættur eru beggja vegna flatarinnar, klettar hægra megin með lynggróðri og hár bakki niður að Hvítá vinstra megin. Flötin er fremur lítil með glompu við fremra hornið hægra megin.  

Þessi braut liggur upp mikla brekku og í mikinn sveig frá hægri til vinstri. Þrjár glompur eru vinstra megin við brautina en teighöggið lendir í miklum halla sem stoppar allt rúll á boltanum. Innáhöggið er blint og ber að varast mikinn halla vinstra megin við flötina. Flestir kylfingar taka of stutta kylfu í innáhöggið og lenda því margir í erfiðri stöðu fyrir neðan flötina vinstra megin. Flötin sjálf er stór, ekki með miklu broti, og staðsett fyrir ofan brautina sem gefur ægifagurt útsýni { þrjár höfuðáttir (vestur- suður- austur).

Þessi braut er kennslubókardæmi um það hvernig fella má golfbrautir inn í það landslag sem fyrir er. Upphafshöggið á þessari braut er mjög snúið og margir valkostir í stöðunni. Geysilega mikilvægt er að hitta brautina í upphafshögginu ef einhver möguleiki á að vera á að hitta flötina í tveimur höggum. Flötin er á tveimur stöllum sem gerir innáhöggið enn erfiðara. Einungis ein glompa er á brautinni, vinstra megin við flötina. Þessi braut er án efa ein fallegasta par 4 hola landsins og hefur upp á allt að bjóða sem ein golfhola getur krafið kylfinga um.   

Þessi braut er stutt par þrjú hola sem fyrirgefur kylfingum of löng högg og gefur þar af leiðandi mikla möguleika ólíkt flestum öðrum par þrjú holum. Bakkinn fyrir aftan flötina skilar boltanum yfirleitt inn á miðja flöt sem fyrirgefur kylfingum rangt járnaval. Djúp glompa er fyrir framan flötina sem er staðsett hátt fyrir ofan brautina. Leyfilegt er að taka hálfu til einu járni meira en nauðsynlegt er en BANNAÐ er að slá of stutt. Flötin var endurbyggð og stækkuð ásamt því sem brot var sett í hana haustið 2005.

Upphafshöggið er að hálfu leyti blint þar sem Kiðjabergið skarar inn í brautina. Þar af leiðandi leita mörg teighögg út til vinstri sem lengir brautina enn frekar. Högglangir kylfingar geta tekið áhættuna á að slá yfir bergið og yfir sandgryfjurnar tvær sem eru staðsettar í hvosinni hægra meginn við brautina. lnnáhöggið getur reynst varasamt þar sem brautin hallar undan fyrir framan flötina og hár bakki er beggja vegna hennar sem og fyrir aftan. Frá flötinni er geysilega fallegt útsýni heim að gamla bænum og yfir hluta nýja vallarins.

Ný flöt var byggð á þessari braut sumarið 2005. Flötin var tekin í notkun um mitt sumar og er sannkallaður bónus fyrir þessa braut. Upphafshöggið er krefjandi og gefur kylfingum tvö möguleika á að leika af skynsemi beint eftir brautinni eða taka áhættu og fara yfir tvær djúpar glompur og ná þar af leiðandi langleiðina inn að flöt. Við flötina eru staðsettar þrjár djúpar glompur. Flötin er lítillega hallandi í allar áttir eftir því hvar holustaðsetningin er. Á þessari braut eiga margar keppnir eftir að vinnast eða tapast eins og lokaholum sæmir.   

Share by: